Tvöfalda veltu ár eftir ár
Framkvæmdastjóri Alva segir miklar breytingar eiga eftir að verða á fjármálafyrirtækjum á næsta ári.
Helgi Björn Kristinsson tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra Alva, móðurfélags Netgíró og Aktiva. Hjá Alva starfa um 40 manns, þar af 20 forritarar, á Íslandi og í Króatíu. Aktiva býður viðskiptavinum sínum neytendalán en Netgíró gerir fólki kleift að greiða fyrir vörur og dreifa greiðslum eftir þörfum, auk þess að bjóða viðskiptavinum sínum lán.
„Alva er stofnað 2012 og fer í loftið 2013 og hefur nánast tvöfaldað sig jafnt og þétt milli ára,“ segir Helgi Björn. Alva velti sjö milljörðum á síðasta ári og Helgi Björn segir að mið að við hvernig árið byrjar megi búast við að velta félagsins tvö faldist enn eina ferðina í ár. „Ég er auðvitað bjartsýnn í upphafi árs. Við verðum vonandi eitthvað norðanmegin við fjórtán milljarða á þessu ári. Við erum með mjög gott „platform“ og gríðarlega góðan skalanleika í viðskiptalíkani til að geta bætt við okkur viðskiptavinum. Við erum auk þess með færri starfsmenn í janúar í ár en í janúar í fyrra en með margfalt meiri veltu. Þannig að við horfum björtum augum til framtíðar. Árferði er auðvitað gott, atvinnustig í landinu er hátt og allar hagtölur eru mjög góðar. Maður vonar, eins og allir, að þessi stöðugleiki haldist,“ segir Helgi Björn. Vöxtur sem þessi, ár eftir ár, er þó hvorki sjálfgefinn né auðveldur.
„Þessu hafa auðvitað fylgt einhverjir vaxtarverkir. Við vorum kannski að einhverju leyti á undan okkar samtíð,“ segir Helgi Björn. Fyrirtækið var því með fyrri fjártæknifyrirtækjum á Íslandi. „Þegar það orð, fjártækni, var lítið notað hér á Íslandi þá var þetta fyrirtæki að gera mjög áhugaverða hluti,“ en viðskiptavinir fyrirtækisins eru um 55 þúsund. Í upphafi var Aktiva hugsað sem fyrirtæki til að halda utan um jafningalán, þar sem fólk gat boðið fram lánsfé fyrir aðra að sækja í, en Helgi Björn var áður framkvæmdastjóri Aktiva. Hins vegar kom í ljós að slík starfsemi væri háð leyfi Fjármálaeftirlitsins til greiðsluhirðingar. „Þannig var fótunum kippt undan grundvelli jafningjalána hjá okkur. Við breyttum þá bara forminu og höfum sjálf fjármagnað lánin og það hefur gengið mjög vel.“
Hlekkur að frétt Viðskiptablaðsins