Móberg kaupir Hópkaup og Leit.is
Móberg ehf. hefur gengið frá kaupum á fyrirtækjunum Hópkaup og Leit.is, sem áður var í eigu DCG. Móberg er í eigu Skorra Rafns Rafnssonar, sem einnig er eigandi Netgríó, Bland, 433.is, Wedo og Móa Media. Þá stofnaði Skorri Rafn einnig íslenska smálánafyrirtækið Hraðpeninga árið 2009 og króatíska smálánafyrirtækið Minikredit 2010.
Með kaupunum hyggst Móberg styrkja og auka umsvif sín á netmarkaðnum.
„Stefna okkar er að þróa þrjú til sex ný fyrirtæki á hverju ári og þessi kaup eru liður í því. Okkar markmið er að þróa lausnir og þjónustu sem hreyfa við markaðnum og skapa ávinning fyrir almenning,“ er haft eftir Skorra Rafni Rafnssyni, forstjóra Móbergs, í tilkynningu.
„Ég er mjög ánægður með kaupin á þessum fyrirtækjum og þau renna styrkri stoð undir þá stefnu okkar að verða leiðandi á þessum markaði innan fimm ára,“ er haft eftir honum.
Hópkaup er fyrirtæki sem býður neytendum upp á vörur og þjónustu með ríflegum afslætti, en með þeim fyrirvara að ákveðinn lágmarksfjölda fólks þarf til að taka þátt í kaupunum.
Leit.is hefur rekið leitarvef frá árinu 1999.
Hlekkur að frétt mbl.is