Jónas og Birgir til Alva Capital
Fjárfestingafélagið Alva Capital hefur ráðið til sín tvo reynda stjórnendur en það eru þeir Jónas Heiðar Birgisson og Birgir Guðmundsson. Jónas hefur verið ráðinn í starf fjármála- og rekstrarstjóra og Birgir hefur verið ráðinn sem verkefnastjóri hótelverkefna.
Jónas Heiðar býr yfir víðtækri reynslu á sviði fjármála og rekstrar og starfaði síðast sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá eldisfyrirtækinu Arnarlax þar sem hann tók virkan þátt í uppbyggingu félagsins frá 2017. Þar áður starfaði Jónas á fjármálasviði Norðuráls en Jónas lauk viðskiptafræðinámi frá Háskólanum á Bifröst árið 2005.
Birgir Guðmundsson býr að langri reynslu úr ferðaþjónustu en hann starfaði síðast sem hótelstjóri á Hilton Nordica frá árinu 2022 til 2025. Fyrir það starfaði hann sem hótelstjóri hjá Icelandair hótelunum, Reykjavík Natura 2021-2022 og Reykjavík Marína 2014-2022. Þar á undan hafði Birgir starfað sem hótelstjóri hjá Kvosin Downtown Hotel árin 2013-2014. Birgir lauk BA-gráðu í hótel- og veitingarekstri frá háskólanum í Washington 2003.
„Við erum afar ánægð með að fá Jónas og Birgi til liðs við Alva Capital. Þeir búa báðir yfir mikilli og traustri reynslu á sínum sviðum og munu styrkja stjórnendateymi félagsins verulega. Ráðningar þeirra eru liður í markvissri uppbyggingu Alva Capital og styðja við metnaðarfull áform okkar um áframhaldandi vöxt,” segir Skorri Rafn Rafnsson, forstjóri og eigandi Alva Capital.
Hlekkur á frétt Viðskiptablaðsins

